fimmtudagur, 12. júní 2014

SpjaldvefnaðurÉg bý rétt undir Ingólfsfjalli sem kennt er við fyrsta landnámsmann okkar sem er skemmtilegt núna þegar ég er með hugann við handverk landnámsmannanna. Eitt af því sem þeir gerðu kallast spjaldvefnaður. Ég var mjög heilluð af honum þegar ég fór að skoða hann og hafði enga þolinmæði til að bíða eftir að komast á námskeið. Ég fór því á netið og fann mér nokkrar síður sem hjálpuðu mér.

Eftir nokkrar tilraunir var ég tilbúin að gera annað en misfallegar smáprufur. Ég ákvað að prófa að vefa með garni sem hugsanlegt væri að landnámsfólkið hefði getað notað. Ullin var auðvitað algeng en þar sem ég vildi nota fínt garn prófaði ég einbandið. En það var algjörlega mislukkuð tilraun. Það kræktist allt saman og ekki var nokkur leið að vinna úr því.

 
Þá keypti ég mér hör hjá Heimilisiðnaðarfélaginu. Úff, dýr var hann. Eins gott að spjaldofna bandið mitt verði sæmilega fallegt hugsaði ég um leið og ég borgaði fyrir garnið. Því miður fékk ég ekki blánan lit sem var svipaðir því sem fá má úr jurtum en guli var þó ágætur.Strax og ég var komin með garnið í hendurnar var ég orðin spennt að byrja. Um kvöldið fann ég til spjöldin og teiknaði upp munstur sem ég taldi að gaman væri að nota. Ég ákvað að vera ekki að flækja málið með flóknu munstri enda nýbúin að læra grunninn í vefnaðinum og alls ekki orðinn neinn sérfræðingur. Næst kvöld þræddi ég spjöldin eftir kúnstarinnar reglum svo þá var allt að verða tilbúið.


Og þá gat ég loksins byrjað. Klukkan var að vísu farin að halla í miðnætti en ég var bara að deyja úr spenningi og varð að byrja. En að þessu sinni gat ég ekki verið lengi að þar sem klukkan var orðin svo margt. En það var erfitt að leggja vefnaðinn frá sér og skríða í rúmið.


Næsta dag hélt ég áfram. Ég var ekki búin að sitja lengi þegar ég sá að ég yrði ekki marga daga að ljúka við bandið.
 
Og auðvitað hafði ég rétt fyrir mér. Áður en kominn var tími til að setja miðdegishressingu á borðið hafði fyrsti alvöru spjaldvefnaðurinn minn hafði litið dagsin ljós.


 Þá er bara að taka næsta skref og gera flóknari bönd með fleiri litum. .

1 ummæli:

  1. þú ert nú meiri snillingurinn frænka flott hjá þér, hlakka til að þukla :-)

    SvaraEyða


Það er alltaf gaman að lesa athugasemdir ykkar við færslurnar mínar svo endilega skrifið smá skilaboð til mín.